Samfélagsskýrsla Brims 2019

Núna er tækifærið

Ísland er, að landhelgi meðtalinni, 88% sjór og 12% land. Af þeim hluta jarðar, sem tilheyrir okkur Íslendingum, er langstærsti hlutinn sjór. Ég lít svo á að við hjá Brimi séum í hópi helstu gæslumanna þessa sægræna svæðis og við höfum metnað til þess að sinna því hlutverki af ábyrgð og festu.

Saga Brims sýnir að félaginu er mjög vel treystandi í málefnum náttúrunnar. Félagið hefur verið í broddi fylkingar fyrirtækja í sjávarútvegi sem sýna í verki virðingu fyrir hafi og náttúru með bættri nýtingu afla og aukinni sjálfbærni í veiðum og vinnslu. Við höfum minnkað verulega brennslu á olíu, alfarið hætt notkun svartolíu og aukið notkun rafmagns hvar sem því hefur mátt koma við. Þá flokkum við allt sorp sem fellur til af starfsemi okkar jafnt til sjós og lands og endurvinnum nánast allt plast. Við vorum fyrst fyrirtækja í sjávarútvegi hér á landi til að leggja fram umhverfis- og samfélagsuppgjör, sem við gerum nú í þriðja skipti. Þar má sjá að við erum á réttri leið.

En ég tel þó að við þurfum að gera miklu betur. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Lífríki þessa 88% hluta Íslands stafar ógn af súrnun sjávar. Það er því miður staðreynd að sjórinn í kringum landið hefur súrnað hraðar frá aldamótum en í árþúsund þar á undan. Staðreyndin er einfaldlega sú að atvinnulíf og samfélög eiga ekki valkosti. Núna er tækifærið til að grípa til aðgerða. Ekki eftir tuttugu ár, ekki eftir tíu ár. Við getum breytt háttum okkar og hindrað veruleg áföll. Við í forystu Brims gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar og vitum að áætlanir okkar og ekki síst fjárfestingar verða að þjóna markmiðum um kolefnishlutlausa starfsemi.

Ábyrgð okkar í Brimi þegar kemur að ófjárhagslegum þáttum nær ekki bara til náttúru heldur einnig til starfsumhverfis og samfélags. Öryggi starfsfólks er í hávegum haft og eins stöndum við vörð um öll réttindi fólks, óháð aldri, kyni og uppruna. Þá tekur Brim virkan þátt í uppbyggingu og framförum í samfélaginu með margvíslegum stuðningi við góð málefni enda er stefna félagsins að vera ábyrgur þátttakandi í íslensku samfélagi og efnahagslífi. Mér finnst mjög mikilvægt að Brim og við öll, sem störfum hjá Brimi, sýnum það í verki.

Guðmundur Kristjánsson

forstjóri Brims