Gæði og rekjanleiki

Á öllum starfsstöðvum félagsins liggur matvæla- eða fóðuröryggiskerfi til grundvallar starfseminni eins og lög kveða á um. Allt hráefni og sérhvert skref framleiðslunnar eru metin með tilliti til hættu og hún lágmörkuð með kerfisbundnum hætti. Allar afurðir félagsins eru framleiddar samkvæmt þessum gæðakerfum. Allar starfsstöðvar eru undir opinberu eftirliti Matvælastofnunar (MAST) sem fylgist með því að farið sé að lögum og reglum. Eftirlit MAST byggist á eftirlitsskoðunum sem fara í sumum tilvikum fram án nokkurs fyrirvara.

Í starfsstöðvum í landi byggjast þessi kerfi á alþjóðlegum stöðlum. Starfsemi félagsins í fiskiðjuverum í Reykjavík og á Vopnafirði eru vottaðar samkvæmt IFS-staðlinum (International Featured Standards). Þetta er alþjóðlega viðurkenndur staðall og einn hinna mest notuðu á sviði matvælaöryggis. Þessir meginstaðlar matvælaöryggis eru samræmdir undir merkjum Global Food Safety Initiative (GFSI).

Árið 2019 voru sextíu og níu prósent afurða félagsins framleidd í starfsstöðvum með vottun frá þriðja aðila gagnvart alþjóðlegum matvælaöryggisstaðli.

Starfsstöð Vottun
Norðurgarður - fiskiðjuver IFS foods
Vopnafjörður – fiskiðjuver IFS foods
Vopnafjörður - Uppsjávarfrystihús IFS foods
Akranes – Uppsjávarfrystihús*
Frystiskip

* Framleiðsla loðnuhrogna er ekki umfangsvottuð þar sem hún tekur mjög stuttan tíma og því torvelt að koma því við að úttektaraðili sjái framleiðsluna. Engar loðnuveiðar og/eða vinnsla voru stundaðar á árinu.

Fiskimjölsverksmiðjur

Fiskimjölsverksmiðjur á Akranesi og Vopnafirði eru vottaðar samkvæmt FEMAS-staðli (Feed Materials Assurance Scheme). Allar fóðurafurðir ársins voru framleiddar í starfsstöðvum með vottun frá þriðja aðila gagnvart alþjóðlegum fóðuröryggisstaðli.

Starfsstöð Vottun
Vopnafjörður - Fiskimjölsverksmiðja FEMAS
Akranes - Fiskimjölsverksmiðja FEMAS

Engar innkallanir voru gerðar árið 2019, hvorki vegna merkinga né nokkurra annarra orsaka. Á því tímabili, sem skýrslan nær til, voru ekki skjalfest nein alvarleg frávik frá reglum félagsins varðandi upplýsingagjöf eða merkingar á afurðum félagsins.

Á öllum starfsstöðvum félagsins liggur matvæla- eða fóðuröryggiskerfi til grundvallar starfseminni

Rekjanleiki

Brim veiðir einungis villtan fisk og eru afurðir félagsins í öllum tilvikum hreinar og náttúrulega heilnæmar sjávarafurðir. Rekjanleiki afurða er mikilvægur hluti matvælaframleiðslu. Matvæla- og fóðuröryggiskerfi Brims byggjast á því að rekja megi vöruna frá uppruna hennar og allt til viðskiptavinar. Við veiðar eru skráðar niður nákvæmar upplýsingar um afla, svo sem veiðisvæði, veiðarfæri, samsetningu afla, magn og fleira. Uppruna hráefnis í vinnslu er svo haldið til haga og hann tengdur við tilbúnar vörur. Enn fremur er haldið utan um ráðstöfun allra afurða. Þannig eru allar afurðir rekjanlegar frá viðtakanda og aftur til hráefnis. Þessi rekjanleiki er prófaður reglulega í innra eftirliti félagsins og einnig í ytri úttektum á kerfum félagsins, meðal annars í úttektum tengdum upprunavottunum.

Afurðir félagsins eru í öllum tilvikum merktar í samræmi við reglur um merkingar á sjávarfangi. Þannig er ávallt ljóst um hvaða fisktegund og veiðisvæði er að ræða og eins hvaða veiðarfæri voru notuð. Á því tímabili, sem skýrslan nær til, voru hvorki skjalfest nein alvarleg frávik frá reglum félagsins varðandi upplýsingagjöf og merkingar afurða félagsins, né hefur félagið verið sektað vegna þessa.

Ánægja viðskiptavina

Vottuð gæðakerfi félagsins ná meðal annars til þess að meta ánægju viðskiptavina. Verklagið kveður á um að matið skuli ná til viðskiptavina sem standa fyrir að minnsta kosti 80% af veltu. Þetta mat fer fram árlega og var síðast gert í janúar 2020, fyrir árið 2019.

Ábyrg veiði

Brim leggur sitt af mörkum með góðri umgengni um þá auðlind sem fiskistofnarnir eru. Félagið fer eftir öllum þeim reglum og samþykktum sem gilda um veiðar og hefur enga aðkomu að ólöglegum veiðum (e. Illegal, Unreported and Unregulated (IUU) Fishing).

Mikilvægt er að skila vistkerfi sjávar í jafn góðu eða betra ástandi til komandi kynslóða. Á því byggist framtíð félagsins.

Fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum fer eftir lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006. Lögin grundvallast á aflamarkskerfi í þeim tegundum sem háðar eru veiðitakmörkunum. Þetta samræmist því sem alþjóðasamfélagið hefur skilgreint sem góða stjórn fiskveiða á vettvangi FAO og matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Stjórnvöld vinna í samráði við hagsmunaaðila að því að tryggja sjálfbæra nýtingu á auðlindinni. Ákvarðanir eru ávallt teknar á vísindalegum forsendum og er þar byggt á starfi Hafrannsóknastofnunnar.

Stjórn fiskveiða á Íslandsmiðum byggist á þremur grundvallaraðferðum:

  • Aflareglu sem er þróuð fyrir hvern nytjastofn. Hvert ár er ákvarðað hversu stórt hlutfall skuli veitt af veiðistofninum.
  • Reglum um útbúnað veiðarfæra. Áhersla er lögð á kjörhæfni veiðarfæra sem þýðir að reynt er að veiða einungis þær tegundir og þá stærð af fiski sem leitað er eftir
  • Verndun og lokun tiltekinna svæða. Í þessu felst að viss veiðarfæri eru bönnuð á tilteknum svæðum eða þá að svæði eru algjörlega lokuð fyrir veiðum. Þetta er gert til að vernda t.d. hrygningarfisk og ungviði

Iceland Responsible Fisheries

Árið 2007 var yfirlýsing um ábyrgar fiskveiðar Íslendinga gefin út. Yfirlýsinguna undirrituðu sjávarútvegsráðherra, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, fiskistofustjóri og formaður Fiskifélags Íslands. Yfirlýsingin var viðbragð við kröfum markaða um sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda og hafði þann tilgang að upplýsa kaupendur um hvernig stjórnun fiskveiða er háttað á Íslandi og sýna fram á að stjórnunin byggðist á bestu vísindalegu þekkingu sem völ er á. Jafnframt kom fram að íslensk stjórnvöld hefðu skuldbundið sig til að fara að öllum þeim alþjóðlegu lögum og samningum um umgengni við auðlindir sjávar, sem þau hafa undirritað.

Árið 2011 gerðist Brim stofnfélagi að sjálfseignarstofnuninni Ábyrgar fiskveiðar. Tilgangur félagsins er að eiga og annast rekstur vörumerkja um ábyrgar fiskveiðar, gera og viðhalda samningum um vottun ábyrgra fiskveiða, miðla upplýsingum um fiskveiðar Íslendinga með sérstakri áherslu á kaupendur og neytendur íslenskra sjávarafurða og sinna öðrum skyldum verkefnum. Markmið félagsins er að stuðla að og viðhalda ábyrgum fiskveiðum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir.

Vottaðir stofnar samkvæmt IRF Upphafstími vottunar Staða
Þorskur Desember 2010 Í gildi
Ufsi Október 2013 Í gildi
Ýsa Október 2013 Í gildi
Gullkarfi Maí 2014 Í gildi
Íslensk sumargotssíld Ágúst 2019 Í gildi

Allar veiðar Brims innan íslenskrar lögsögu úr þessum stofnum falla undir vottunina á stofnunum. Starfsstöðvar fyrirtækisins í Reykjavík og Vopnafirði eru jafnframt með rekjanleikavottun sem staðfestir að þær vörur, sem framleiddar eru, eru rekjanlegar frá veiðum (e. chain of custody).

Marine Stewardship Council

Brim er hluthafi í ISF (Icelandic Sustainable Fisheries), félagi sem stofnað var árið 2012 af fyrirtækjum í veiðum, framleiðslu og sölu íslenskra sjávarafurða. Tilgangur ISF er að afla vottana á veiðarfæri og fiskistofna sem nýttir eru við Ísland. ISF leitar vottana gagnvart staðli Marine Stewardship Council (MSC) og hafa hluthafar félagsins aðgang að vottun þeirra tegunda sem veiddar eru í íslenskri lögsögu.

Allar starfsstöðvar félagsins hafa rekjanleikavottun MSC (e. chain of custody) sem gerir Brimi kleift að selja afurðir sem unnar eru úr MSC-vottuðum stofnum sem slíkar.

ÓLÖGLEG VEIÐI

Brim leggur áherslu á góða umgengni um auðlind fiskistofnanna. Félagið fer eftir öllum reglum og samþykktum sem gilda um veiðar og hefur enga aðkomu að sjóræningjaveiðum (e. Illegal, Unreported and Unregulated (IUU) Fishing).

BROTTKAST AFLA

Hjá Brimi telst það til ábyrgra fiskveiða að nýta allan þann afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa félagsins og hámarka þar með verðmætasköpunina. Brottkast afla er auk þess algjörlega óheimilt samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun.

VIGTUN OG SKRÁNING AFLA

Íslensk stjórnvöld setja strangar reglur um vigtun og skráningu sjávarafla og leggur starfsfólk Brims sig í líma um að fara eftir þeim. Það er mikið hagsmunamál fyrir Brim, íslenskan sjávarútveg og þjóðina alla að ástand fiskistofna sé heilbrigt og gott og upplýsingar um fiskveiðar og umgengni við vistkerfi hafsins séu traustar, rekjanlegar og gagnsæjar.

VEIÐAR MEÐ BOTNVÖRPU

Botnfiskveiðar Brims fara svo til eingöngu fram með botnvörpu. Veiðarnar fara ávallt fram í samræmi við íslensk lög og eru allar lokanir virtar, hvort sem um ræðir tímabundnar lokanir á svæðum vegna hrygningar eða vegna viðkvæms lífríkis botnlífvera.

FUGLAR OG ÝMSAR SJÁVARLÍFVERUR

Fuglar og ýmsar sjávarlífverur lenda stundum í veiðarfærum skipa og fer tíðni slíkra atvika eftir því hvers konar veiðar eru stundaðar. Skip Brims hafa ekki fengið fugla í veiðarfærin en einstaka sinnum fá togarar félagsins hákarl. Hákarlinn er hirtur til vinnslu. Uppsjávarveiðiskip félagsins fá stundum hnúfubak í nótina og geta slíkar uppákomur tafið veiðar meðan verið er að stugga honum frá. Veiðum er hagað á þann hátt að reynt er að lágmarka líkur þess að hnúfubakur rati í veiðarfæri.