Mannauður

Mannauður

Brim hvetur bæði stjórnendur og starfsfólk til að láta vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns sig varða. Félagið er fjölskylduvænn vinnustaður og er leitast við að ævinlega ríki jafnvægi á milli vinnu og einkalífs. Félagið leggur áherslu á gott vinnuumhverfi, öryggi og góðan aðbúnað starfsfólks. Starfsfólki félagsins stendur til boða að fara í árlega heilsufarsskoðun sér að kostnaðarlausu.

Félagið vinnur að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað og stuðla að sem bestu starfsumhverfi fyrir starfsfólk sitt á hverjum tíma. Félagið leggur áherslu á það í starfsmannastefnu sinni að innan þess starfi hæft og traust starfsfólk sem tryggir af fagmennsku og ábyrgð sjálfbæra nýtingu og hagkvæmni í umgengni við auðlindina.

Á árinu 2019 voru að meðaltali 798 stöðugildi hjá samstæðunni miðað við heilsársstörf, en þau voru 773 á árinu 2018 og hefur því fjölgað um 3% í heild á milli ára. Þar af voru 275 stöðugildi á sjó árið 2019, en 207 árið 2018. Fjölgunina má rekja til þess að Vigri RE-71 kom inn í rekstur samstæðunnar árið 2019. Í landi voru stöðugildin að meðaltali 523 á árinu 2019, en 566 árið 2018. Þar fækkaði stöðugildum því um 8% á milli ára.

Stöðugildi

Kynjahlutfall starfsfólks í prósentum

Jafnlaunavottun

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Félagið lauk við jafnlaunavottun í mars 2019. Jafnlaunakerfi félagsins var tekið út af fulltrúa BSI á Íslandi sem er faggiltur vottunaraðili með réttindi til að taka út skilyrði ÍST 85:2012 jafnlaunastaðals. Úttektin gekk vel. Hér var um að ræða fyrstu skref við innleiðingu jafnlaunakerfis félagsins og er unnið að því að innleiða efni þeirra enn frekar. Sá áfangi að fá jafnlaunamerkið er afraksturinn af mikilli og góðri samvinnu margra starfsmanna Brims.

Brim er þriðja íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem hlýtur jafnlaunamerkið. Félagið vinnur að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað og í því felst meðal annars að kynbundinn launamunur sé innan við 5%. Þegar litið er til heildarlauna og tekið tillit til helstu þátta, sem hafa áhrif á laun, eru konur með um 2% lægri laun en karlar samkvæmt úttekt sem gerð var í mars 2019. Það hallar því enn á konur. Unnið er að því að enginn launamunur verði á milli kynjanna.

Jafnlaunamerki_skyringarmynd.png

MANNRÉTTINDI OG KJARASAMNINGAR

Félagið virðir gildandi kjarasamninga og önnur lögbundin réttindi starfsmanna, meðal annars til orlofs, fæðingarorlofs, launa vegna óvinnufærni, veikinda eða slysa, auk annarra réttinda sem kveðið er á um í gildandi kjarasamningum á hverju starfssvæði félagsins.

Langflestir starfsmenn félagsins eru í stéttarfélagi eða 97%, og þiggja laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga. Starfsmenn í fiskvinnslu fá greitt álag þegar unnið er með hráefni á vinnslulínum, en sá kaupauki styðst við ákvæði kjarasamninga. Ekkert kaupaukakerfi er í gangi á öðrum stöðum innan félagsins. Sjómenn þiggja laun samkvæmt hlutaskiptakerfi sem byggist á kjarasamningum. Launakerfi sjómanna byggir í grunninn á aflaverðmæti viðkomandi skips og skiptist verðmætið á milli útgerðar og áhafnar eftir hlutaskiptakerfi.

Félagið hefur sett sér siðareglur um mannréttindi, spillingu eða mútur. Brim leggur áherslu á að fara alltaf að lögum og almennum viðmiðum um siðferði í viðskiptum og fylgir þeim reglum sem félagið setur sér á hverjum tíma. Brim virðir mannréttindi og hugar sérstaklega að þeim er lúta að félagafrelsi, nauðungar- og þrælkunarvinnu og misrétti á vinnustöðum.

Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar þeirra fari ævinlega að lögum í landinu er varða alla þá sem starfa fyrir þá, sama hvort um er að ræða launþega þeirra eða undirverktaka.

Einelti eða kynferðisleg áreitni eru ekki liðin hjá félaginu. Til er aðgerðaáætlun um viðbrögð ef upp kemur grunur um einelti eða áreitni á vinnustað og var hún endurskoðuð á árinu. Áhersla er lögð á að starfsmenn sýni hver öðrum virðingu og er óréttlæti ekki liðið, s.s. einelti, kynferðislega áreitni eða mismunun vegna ómálefnalegra þátta á borð við kynferði, trú, kynþátt eða kynhneigð. Ef við verðum vör við einelti eða óréttlæti, upplýsum við yfirmenn okkar um það samstundis.

Fræðsla

Brim kappkostar að fræða, endurmennta og þjálfa starfsfólk sitt. Mikilvægt er að nýtt starfsfólk hljóti viðeigandi fræðslu og þjálfun. Markmiðið er að félagið laði til sín starfsfólk með framúrskarandi færni á sínu sviði. Skipulögð þjálfun og fræðsla fer fram allt árið.

Fræðslustarfið fer ýmist fram innanhúss eða annars staðar, stór hluti starfsfólks sækir til að mynda endurmenntun í Slysavarnaskóla sjómanna ár hvert. Aukin tæknivæðing hefur auðveldað samskipti við starfsfólk sem dreifist víða um land og sjó. Árið 2018 var tekið í notkun rafrænt fræðslukerfi sem nefnist Eloomi og hefur það nýst vel.

Slysavarnaskóli sjómanna

Árlega sækja sjómenn á námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna. Helstu námskeiðin eru:

  • NSL 01.1 Öryggisfræðsla
  • NSL 02.1 Endurmenntun í öryggisfræðslu
  • NSL 02.4 Endurmenntun STCW 10
  • NSL 03.1 Framhaldsnámskeið eldvarna
  • NSL 04.1 Líf- og léttbátar aðrir en hraðskreiðir léttbátar
  • NSL 05.1 Sjúkrahjálp í skipum
  • NSL 08.1 Hóp- og neyðarstjórnun

NSL 01.1 Námskeiðið eflir þekkingu nemenda á þeim björgunar- og öryggisbúnaði sem er um borð í skipum. Einnig er farið í saumana á því hvernig bregðast á við slysum og óhöppum, fyrirbyggja þau og tryggja eigið öryggi. Mikilvægt er að menn geti brugðist rétt við á neyðarstundu.

Fjöldi fræðslustunda árið 2019

Fjöldi fræðslustunda árið 2018 voru 4.134 á móti 1.022 fræðslustundum árið 2019. Ástæða þessarar fækkunar er sú að fræðslustundir sem hefðu átt að vera í lok árs 2019 munu færast fram á sumarið 2020. Því eru í raun óvenju fáar fræðslustundir sem teljast til ársins 2019.

Námskeið Þátttakendur Heildar fjöldi fræðslustunda
Baadernámskeið 10 37
Íslenskunámskeið 6 24
Slysavarnaskóli sjómanna 45 616
Nýliðanámskeið 60 120
Skyndihjálp 9 36
Starfsþjálfanámskeið 5 10
Verndarmat, svindl og helstu forvarnir í gæðakerfum 51 179
186 1.022

Starfsmannaskemmtanir

FJÖLSKYLDUHÁTÍÐ BRIMS Í HÚSDÝRA- OG FJÖLSKYLDUGARÐINUM

Í ágúst ár hvert hefur Brim boðið starfsfólki og fjölskyldum þeirra til hátíðar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Starfsfólk hefur verið mjög ánægt með hátíðina og mætingin jafnan verið með eindæmum góð. Líkt og fyrri ár fengu öll börn, 13 ára og yngri, dagpassa í leiktækin. Boðið var upp á andlitsmálun, bangsi og ljón röltu um garðinn og heilsuðu upp á krakkana og allir fengu grillaðar pylsur. Ísvagn frá ísbúðinni Skúbb var einnig á svæðinu og vakti mikla lukku.

JÓLATÓNLEIKAR BRIMS

Brim býður starfsfólki árlega á jólatónleika. Árið 2019 var um að ræða Baggalút í Háskólabíó. Í hléi bauðst starfsfólki að gæða sér á veglegum veitingum. Um 150 miðar voru gefnir til Landsbjargar og voru þeir miðar vel nýttir.

ÁRSHÁTÍÐ BRIMS

Árshátíð Brims er iðulega haldin daginn fyrir Sjómannadaginn, enda er það eina helgin þar sem allir sjómenn félagsins hafa tækifæri til að sækja hátíðarhöldin.

Árshátíðin 2019 var haldin 8. júní í Origohöllinni og heppnaðist virkilega vel. Um 450 manns sóttu árshátíðina og skemmtu sér saman undir stjórn Selmu Björnsdóttur og Vilhelms Antons Jónssonar.

Hátíð hafsins

Brim tekur þátt í Hátíð hafsins sem fram fer sömu hátíðarhelgina ár hvert; Hafnardagurinn er haldinn á laugardeginum og Sjómannadagurinn á sunnudeginum. Bakhjarlar hátíðarinnar eru Brim, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð. Hátíðin er ein sú allra stærsta sem haldin er í Reykjavíkurborg en rúmlega 40.000 manns lögðu leið sína niður að höfninni árið 2019.

Á hátíðinni fögnum við öllu því sem viðkemur hafinu; sjómennsku, skipum og sjávarlífverum.

Starfsmannafélög

Starfsmannafélag Brims er hugsað fyrir allt starfsfólk Brims til bæði sjós og lands. Tilgangur félagsins er að efla félagslíf og kynningu meðal félagsmanna með skemmtiferðum, skemmtunum og hvers kyns menningar- og fræðsluefni sem félagsmönnum má að gagni verða. Starfsmannafélagið hefur síðastliðin ár haft að markmiði að halda haust- og vorfagnað, jólahlaðborð og jólaball fyrir börn starfsfólks. Starfsmannafélagið á sumarbústað á Flúðum sem leigður er út allt árið um kring. Í lok árs var efnt til samkeppni um nýtt nafn á félagið, sem áður hét Starfsmannafélag HB Granda. Félagið nefnist nú Brimgarður.

Starfsfólk Brims á Vopnafirði velur um að vera í Brimgarði eða í starfsmannfélagi Brims á Vopnafirði. Fjarlægðin milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar er mikil og starfsfólk Vopnafjarðar gefst sjaldan kostur á að lyfta sér á kreik í Reykjavík nema í apríl - júní þar sem annar tími fer í vaktir.

Öryggi

Skipulag öryggismála miðar að því að auka vægi málaflokksins innan félagsins og efla skilvirkni öryggismála. Stjórnendur bera ábyrgð á öryggismálum. Einnig eru starfandi öryggisnefndir á öllum sviðum fyrirtækisins og hafa þær skýrt afmörkuð hlutverk. Mannauðssvið félagins annast umsjón og eftirlit með málaflokknum.

Hver og einn starfsmaður ber ábyrgð á eigin öryggi. Ein af grunnforsendum þess að okkur takist að fækka slysum er að allir axli ábyrgð og stjórnendur jafnt sem starfsfólk einsetji sér að vinna að bættu öryggi. Stjórnendur bera ábyrgð á því að búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnusvæðum og starfsstöðvum sem þeir hafa umsjón með.

Félagið treystir því að stjórnendur sýni jafnan gott fordæmi og leiði vinnuverndarstarf félagsins.

ÖRYGGIS- OG VINNUVERNDARSTEFNA

Brim er traustur vinnustaður þar sem stjórnendum og starfsfólki er annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. Öryggisstjórnunarkerfi félagsins nær yfir alla starfsemi þess, skráningu og rýni slysa og atvika. Áhættumat og öryggisreglur eru lykilþættir, auk þess sem markviss þjálfun og fræðsla gegna mikilvægu hlutverki.

Við hjá Brimi einsetjum okkur að vinna markvisst að öryggis- og vinnuverndarmálum og skapa starfsfólki öruggt starfsumhverfi.

  • Við berum öll ábyrgð þegar kemur að öryggis og vinnuverndarmálum
  • Við berum virðingu hvert fyrir öðru og pössum hvert upp á annað
  • Við erum stolt af því að starfa á vinnustað þar sem öryggismál eru tekin alvarlega

Öryggisnefndir og öryggisfulltrúar

Hjá félaginu starfa öryggisnefndir sem taka til allra starfstöðva þess. Þetta er í samræmi við reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006. Öryggismál eru hluti starfsmannastefnu félagins. Brýnt er að starfsfólk fylgi öryggisreglum á vinnustað, taki þátt í öryggisfræðslu og bendi á það sem betur mætti fara í öryggismálum.

Sextíu og fimm starfsmenn eiga sæti í öryggisnefndum hjá félaginu. Alls eru 11 öryggisnefndir starfræktar. Öryggisfulltrúar eru annars vegar þeir öryggisverðir sem tilnefndir eru af stjórnanda viðkomandi starfstöðvar og hins vegar öryggistrúnaðarmenn sem kosnir eru af starfsfólki fyrirtækisins. Hlutverk öryggisfulltrúa er að sjá til þess að öryggis- og vinnuverndarmál séu í samræmi við lög* og stefnu félagsins.

* Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Reglugerð um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum nr. 200/2007

Við hjá Brimi einsetjum okkur að vinna markvisst að öryggis- og vinnuverndarmálum og skapa starfsfólki öruggt vinnuumhverfi

FORVARNIR

Öryggis- og vinnuverndarmál eru mikilvægur þáttur í fræðsluáætlun Brims. Í nýliðafræðslu fer starfsfólk félagsins vandlega yfir atriði er varða öryggi og vinnuvernd fyrirtækisins.

Forvarnir og fræðsla um borð í skipum fer að stórum hluta fram í gegnum nýliðafræðslu sem skipstjórnendur sinna og einnig á reglulegum björgunaræfingum þar sem öll áhöfn skips tekur þátt í æfingunni. Lögð er áhersla á að skipstjórnendur haldi reglulegar björgunaræfingar, minnst tólf sinnum á ári.

ÖRYGGISDAGUR BRIMS 2019

Öryggisdagur Brims var haldinn í fjórða sinn þann 27. nóvember 2019. Öryggisdagurinn þjónar því hlutverki að viðhalda nauðsynlegu samtali innan Brims um öryggi starfsfólks. Þar komu saman stjórnendur, öryggisfulltrúar og starfsfólk Brims. Framkvæmdastjóri setti fundinn með ávarpi og fór síðan fór yfir tölfræði og kostnað við veikindi hjá sjómönnum. Forstöðumaður mannauðssviðs fór yfir skipulag á öryggismálum, rakti helstu áherslur á því sviði og tæpti einnig á slysatíðni í samanburði við fyrri ár og og núverandi fyrirkomulagi á rafrænum slysaskráningum. Tæknistjóri skipa fór yfir slys á sjó og verkstjóri í Norðurgarði fór yfir slys í landi og stöðu á öryggismálum í fiskiðjuveri.

Slys

Brim leggur áherslu á að öll slys séu skráð og eru verkferlar og vinnuupplýsingar kynnt fyrir starfsfólki. Öll slys ber að skrá með rafrænum hætti á innri vef Brim. Fjarveru- og umönnunarslys starfsfólks í landi eru tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags. Fjarveruslys starfsfólks á sjó eru tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands, Rannsóknarnefndar sjóslysa og tryggingafélaga.

  • Fjarveruslys: Slys sem valda fjarvistum frá vinnu (vinnuslys), þ.e. sem nemur slysdegi + næsta degi eða enn lengra tímabili.
  • Umönnunarslys: Slys þar sem hinn slasaði þarf að leita sér aðstoðar á heilsugæslu en mætir engu að síður til vinnu daginn eftir.
  • Skyndihjálparslys: Minniháttar slys eða slys sem krefjast þess að notaður sé skyndihjálpar­búnaður (smáskurðir o.þ.h.). Viðkomandi tekur sér ekki frí frá vinnu.
  • Frítímaslys: Slys sem verða í frítíma starfsfólks eða á leið þess til eða frá vinnu.

ÁHÆTTUÞÆTTIR Í STARFSEMI BRIMS

Með tilkomu rafrænnar slysaskráningar aukast möguleikar á úrvinnslu gagna til muna. Samtals voru tilkynnt 61 slys á árinu 2019, 38 slys á landi og 23 slys á sjó. Árið 2018 voru tilkynnt 91 slys; 65 slys á landi og 26 slys á sjó.

Slys 2016 til 2019 eftir tegund slysa

Slys 2016 til 2019 eftir mánuðum

ORSÖK ÁVERKA EFTIR TEGUND SLYSS 2019

Þegar rýnt er í öll skráð slys árið 2019 sést að fjarveruslys urðu helst vegna högga af einhverju tagi. Einnig eru alvarleg slys tengd hnífum og því þegar starfsfólk klemmist nokkuð tíð.

ÖRYGGI SJÓMANNA

Engin banaslys hafa orðið á íslenskum sjómönnum við strendur landsins síðustu þrjú ár.

Þennan góða árangur má þakka tækniframförum, þ.e. betri skipum og búnaði, en ekki síst starfi Slysavarnaskóla sjómanna sem stofnaður var árið 1985. Í skólanum fer fram fræðsla um öryggismál og slysavarnir. Nám við skólann er forsenda lögskráningar á skip. Slysavarnaskóli sjómanna er nú undirdeild í Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Brim lætur sig slysavarnir varða, sem kemur fram í innra starfi félagsins, þ.e. fræðslu og forvörnum, og einnig stuðningi þess við öflugt slysavarna- og björgunarstarfi til sjós og lands.