Brim framleiðir verðmætar afurðir úr villtum fiski sem aflað er úr hafinu við Ísland. Lögð er rík áhersla á nýsköpun og háþróaða tækni við veiðar og vinnslu sjávarafurða og stöðuga þróun framleiðslunnar. Viðskiptavinum er tryggt stöðugt framboð heilnæms sjávarfangs sem unnið er á hagkvæman hátt úr sjálfbærum stofnum.
Áherslur Brims eru; einfaldur og sjálfbær rekstur, markviss nýting fiskveiðiheimilda, vöxtur og aukin arðsemi og samstarf við önnur fyrirtæki á sviði rannsókna-, markaðs- og sölumála.
Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar liggur til grundvallar starfsemi Brims og leggur félagið sig fram um að nýta auðlindir hafsins af virðingu og fullnýta þann afla sem skip þess færa að landi svo að komandi kynslóðir megi áfram njóta þeirra. Brim ber jafnframt ábyrgð gagnvart samfélaginu. Þannig er stefna félagsins sú að starfsemi þess endurspegli ábyrgð gagnvart auðlindum til sjós og lands og samfélaginu sem heild.
Brim er með starfsstöðvar í Reykjavík, Akranesi og Vopnafirði. Á árinu voru að meðaltali átta fiskiskip í rekstri. Aðalskrifstofur félagsins eru við Norðurgarð í Reykjavík. Þar er framkvæmdastjórn félagsins staðsett ásamt fjármála-, botnfisk-, uppsjávar-, markaðs- og mannauðssviði. Fjöldi stöðugilda Brims auk dótturfélaga voru að meðaltali 798 árið 2019 og spanna þau alla virðiskeðjuna, þ.e. veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins. Félagið er skráð á aðalmarkaði kauphallar, NASDAQ OMX Ísland.
Árið 2019 voru afurðir seldar til 32 landa. Stærstu markaðssvæðin voru Frakkland, Bretland, Noregur og Pólland.
Í árslok voru helstu dótturfélög Brims: Ögurvík, Icelandic Asia, Vignir G. Jónsson, Seafood Services, Norðanfiskur og Gjörvi ehf.
Félagið á einnig 20% hlutdeild í Deris S.A. í Síle, 33% í Laugafiski og 25% í Marine Collagen ehf.
Stefna félagsins í samfélagsábyrgð tekur á umhverfis,- samfélags og efnahagslegum þáttum í starfseminni og endurspeglar ábyrgð félagsins sem þátttakanda í íslensku efnahagslífi og samfélagi.
Virðing fyrir umhverfinu og lífríki sjávar er grundvallargildi í allri starfsemi félagsins. Bætt umgengni við auðlindir og umhverfi og fullnýting afla, auk öryggis og vellíðan starfsfólks, eru helstu áherslur félagsins þegar kemur að ófjárhagslegum þáttum í rekstri þess.
Hlutverk Brims er að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti og arðsemi veiðiheimilda félagsins. Stefna Brims er að vera samþætt sjávarútvegsfyrirtæki í útgerð, vinnslu og sölustarfssemi sem skilar eigendum arði og starfsfólki eftirsóknarverðu starfsumhverfi. Félagið starfar í sátt við umhverfið og stígur fram af fullri ábyrgð með það að markmiði að tryggja trausta atvinnu og byggð á Íslandi.
Stefna Brims er að leita allra leiða til að minnka mengun frá eigin starfsemi og halda áfram að þróa rekstur sinn til sjálfbærra veiða og vinnslu.
Raforka skal notast þar sem framboð leyfir og stefna Brim er að auka hlut raforku á kostnað jarðefnaeldsneytis, meðal annars með því að tengja skip félagsins við raf- og hitaveitu í höfn.
Markmið félagsins er að færa sig enn frekar yfir í umhverfisvænni eldsneytistegundir og kælimiðla. Þá stefnir Brim á aukna notkun rafmagnsbíla og tvinnbíla á næstu árum og gerir samgöngustyrki við starfsfólk sitt til að hvetja til umhverfisvænni ferðamáta.
Allt sorp, sem fellur til af starfseminni, bæði á sjó og landi, er flokkað.
Það er mikið hagsmunamál fyrir Brim, sem og íslenskan sjávarútveg og þjóðina alla að ástand fiskistofna sé heilbrigt og upplýsingar um fiskveiðar og umgengni við vistkerfi hafsins séu traustar, rekjanlegar og gagnsæjar.
Brim leggur sitt af mörkum með góðri umgengni um þá auðlind sem fiskistofnarnir eru. Félagið fer eftir öllum þeim reglum og samþykktum sem gilda um veiðar og hefur enga aðkomu að ólöglegum veiðum (e.Illegal, Unreported and Unregulated (IUU) Fishing).
Brim veiðir einungis villtan fisk og eru afurðir félagsins í öllum tilvikum hreinar og náttúrulega heilnæmar sjávarafurðir. Rekjanleiki afurða er mikilvægur hluti matvælaframleiðslu. Matvæla- og fóðuröryggiskerfi Brims byggja á því að rekja megi vöruna frá uppruna hennar og allt til viðskiptavinar.
Brim tekur virkan þátt í að stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu með því að styðja við góð málefni. Verkefnin eru fjölbreytt og með þeim styður Brim m.a. öflugt slysavarna- og björgunarstarf, menningarstarf og nýsköpun og fræðslu tengda sjávarútvegi. Félagið er stolt af framlagi sínu til samfélagsins og þeirri félagslegu uppbyggingu sem þar á sér stað.
Brim er traustur vinnustaður þar sem stjórnendum og starfsfólki er annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. Brim er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem leitast er við að jafnvægi ríki á milli vinnu og einkalífs. Félagið leggur áherslu á gott vinnuumhverfi, öryggi og góðan aðbúnað starfsfólks. Fyrir frekari upplýsingar vísast til starfsmannastefnu Brims.
Brim virðir almenn mannréttindi, rétt til félagafrelsis og kjarasamninga. Verktökum og undirverktökum ber að fara eftir gildandi lögum í landinu, óháð því hvort þeir eru launþegar eða sjálfstætt starfandi undirverktakar. Félagið virðir gildandi kjarasamninga og önnur lögbundin réttindi starfsfólks. Einelti eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá Brimi.
Stjórn og forsvarsmenn Brims leggja ríka áherslu á að viðhafa góða stjórnarhætti svo að tryggt sé að starf stjórnarinnar sem og starfsemi félagsins í heild, uppfylli þau viðmið sem gilda um góða viðskiptahætti. Félagið er skráð á aðalmarkaði NASDAQ-kauphallarinnar á Norðurlöndunum og fylgir þeim samskiptareglum sem þar gilda.
Stafrænar lausnir og fjórða iðnbyltingin munu gjörbylta sjávarútvegi sem og öðrum atvinnugreinum. Brim vinnur með ýmsum félögum að nýsköpun og áhugaverðum lausnum á sviði stafrænnar tækni.
Mælikvarðar og mælingar á árangri Brims má finna í árlegri samfélagsskýrslu félagsins.
Mælikvarðar eru endurskoðaðir árlega með tilliti til breyttrar starfsemi og aukins aðgangs að upplýsingum. Á árinu 2019 bætist við skýrsluna dótturfélagið Ögurvík sem kom inn í starfsemina að fullu 2019. Unnið var að því að bæta upplýsingakerfi til að ná betur utan um þá mælikvarða sem eiga við hjá félaginu. Þessi samfélagsskýrsla er í meginatriðum eins upp byggð og fyrri skýrslur.
Skýrslan tekur saman þá þekkingu sem byggð hefur verið upp hjá félaginu en er ekki tæmandi úttekt á öllum þeim áhrifum sem Brim hefur á umhverfi, samfélag og efnahag. Allar upplýsingar eru í samræmi við þá þekkingu sem við höfum yfir að búa á þeim tíma sem skýrslan er rituð. Umhverfisupplýsingum er safnað beint frá samstarfsaðilum inn í umhverfisgagnagrunn félagsins. Skýrslan er ekki endurskoðuð af þriðja aðila.
Samfélagsskýrsla Brims fjallar um ófjárhagslega þætti starfseminnar og er unnin í samræmi við GRI Standard (e. Global Reporting Initiative).
Upplýsingar um félagslega og efnahagslega þætti koma úr upplýsingakerfum Brims.