Í þessum kafla verður tæpt á nokkrum verkefnum sem unnið hefur verið að á árinu 2019.
Það er yfirlýst stefna Brims að stunda ábyrga verðmætasköpun úr sjávarfangi. Í því felst að hámarka verðmæti úr veiðiheimildum félagsins og gera það á hagkvæman og arðsaman hátt.
Saga Brims er saga umbreytinga, nýsköpunar og tækniþróunar. Félagið ætlar sér að halda áfram að móta framtíð sjálfbærs sjávarútvegs á Íslandi.
Brim vill vera til fyrirmyndar í samfélaginu og starfsfólk félagsins leggur sig fram um að vera félaginu til sóma í störfum sínum. Reglulega kemur upp umræða um samfélagsábyrgð þegar félagið stendur fyrir breytingum á starfseminni. Öllum breytingum, sem félagið ákveður að innleiða, sama hversu umdeildar þær kunna að vera, er ætlað að styrkja fyrirtækið sem heild og tryggja áframhaldandi vegferð þess og allra sem þar starfa.
Brim hlaut Umhverfisverðlaun atvinnulífsins árið 2019. Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims, verðlaunin í Hörpu, en þar fór fram fjölbreytt dagskrá á Umhverfisdegi atvinnulífsins. Í umsögn dómnefndar verðlaunanna sagði m.a.: „Brim hefur tekið umhverfismálin föstum tökum. Fyrirtækið leggur áherslu á samfélagsábyrgð og virðingu fyrir umhverfinu og hefur unnið að því að kortleggja áhrif og ábyrgð félagsins. Þá hefur Brim sett sér markmið og mælikvarða til að mæla árangur, draga úr sóun og auka verðmæti. Brim hefur dregið markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda, fjárfest í nýrri tækni og skipum sem hefur skilað miklu.“
Við athöfnina sagði Guðmundur Kristjánsson m.a.: „Við í Brimi erum þakklát fyrir þessa viðurkenningu. Hún gerir okkur ánægð og stolt. Virðing fyrir náttúru hefur verið okkar leiðarljós og við sjáum að áhersla á umhverfismál og sjálfbærni skilar sér í aukinni arðsemi og miklum ábata fyrir samfélagið í heild. Við í Brimi ætlum að halda áfram á sömu braut. Umhverfisverðlaunin eru hvatning til að gera enn betur.“
Á myndinni eru Torfi Þ. Þorsteinsson, forstöðumaður samfélagstengsla Brims, Ragna Sara Jónsdóttir, formaður dómnefndar, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Ingólfur Steingrímsson, forstöðumaður innkaupa og rekstrareftirlits Brims og Hildur Hauksdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi.
Í samræmi við yfirlýsta stefnu félagsins um að efla starfsemina voru stigin nokkur stór skref á árinu. Til að auka arðsemi botnfiskvinnslunnar var ákveðið að endurnýja tæki og búnað fiskiðjuversins í Norðurgarði. Einnig samdi félagið um kaup á fiskvinnslunni Kambi og útgerðarfélaginu Grábrók í Hafnarfirði, með tveimur línubátum og aflaheimildum í krókaaflamarkskerfinu upp á 2.820 tonn, þar af 2.130 tonn af þorski.
Til að efla sölustarfsemina í Asíu, sem er mikilvægt, arðbært og vaxandi markaðssvæði, voru keypt sölufyrirtæki í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína, ásamt þjónustufélagi á Íslandi sem tengist framangreindum félögum.
Hluthafafundur samþykkti í ágúst að breyta nafni félagsins úr HB Granda í Brim. Þetta var gert að tillögu stjórnar. Nafni félagsins var síðast breytt fyrir 15 árum og vísaði þá til sameiningar tveggja félaga, Haraldar Böðvarssonar og Granda, sem áður varð til við sameiningu Ísbjarnarins og Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Að þessu sinni endurspegla breytingarnar aukna áherslu félagsins á markaðs- og sölumál, sem birtist m.a. í kaupum á sölufélögunum í Asíu.
Brim kom fyrst til sögunnar árið 2003 sem sjávarútvegsfélag Eimskipafélagsins og átti þá Harald Böðvarsson, Skagstrending og Útgerðarfélag Akureyrar. Við sameiningu Útgerðarfélags Akureyrar, sem var þá komið í eigu Útgerðarfélagsins Tjalds, við ÚT ári síðar, var sameinað félag nefnt Brim. Árið 2018 var nafni Brims breytt í Útgerðarfélag Reykjavíkur sem hefur nú afsalað HB Granda nafnið Brim til eignar og afnota.
Brim er einfalt og þjált nafn sem er, ásamt vörumerkinu Brim Seafood, þekkt á alþjóðamörkuðum fyrir sjávarafurðir. Vörumerkið myndar þrjár öldur. Öldurnar tákna annars vegar brim, sem brýtur nýja leið í viðskiptum, og hins vegar mynda þær fisk, sem er tákn fyrir afurðir fyrirtækisins. Blái liturinn stendur fyrir lit sjávarins og silfrið táknar þau verðmæti sem Brim skapar.
Stjórn Brims ákvað að ráðast í umfangsmikla endurnýjun á botnfiskvinnslu félagsins í Norðurgarði, í því skyni að auka arðsemi starfseminnar. Keyptar verða þrjár nýjar vinnslulínur frá Marel, auk þess sem laus-og plötufrystar, frystikerfi, innmötun og ýmis annar búnaður verður endurnýjaður.
Verkefnið er mjög metnaðarfullt og markmiðið að vinnslustöðin verði ein sú fullkomnasta á heimsvísu. Áætlað er að framkvæmdir hefjist um mitt ár 2020. Bryddað verður upp á margvíslegum nýjungum, svo sem öflugu gæðaeftirlitskerfi og nýjustu róbótatækni við innmötun á fiski, röðun í kassa og frágangi á ferskum afurðum.
Frá undirritun samnings við Marel. Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, Gísli Kristjánsson framleiðslustjóri Brims, Óskar Óskarsson, sölustjóri Marel Fisk og Sigurður Ólason, framkvæmdastjóri Marel Fisk.
Brim, Norðanfiskur, Íslenska gámafélagið og Samskip undirrituðu yfirlýsingu í byrjun árs um endurvinnslu og útflutning á frauðplasti.
Verkefnið byggir á öflugri pressuvél sem staðsett er í Kistunni, sorpflokkunarstöð Brims á Akranesi, en Norðanfiskur fær allan lax, sem kemur til vinnslu, í frauðplastkössum. Pressuvélin minnkar ummál fiskikassanna um 95% og með því gefst tækifæri til þess að koma plastinu til endurvinnslu.
Ritað var undir samninginn í tilefni af því að fyrsti gámurinn fór til Malasíu, þar sem efnið er nú notað til að framleiða meðal annars mynda- og speglaramma. Árið 2019 voru flutt út tæp 15 tonn af frauðplasti. Með þessu verkefni hefur verið lagður grunnur að raunhæfri lausn til að endurnýta úrgang og skapa verðmæti. Markmið allra fyrirtækjanna er að vera leiðandi í umhverfismálum.
Frá undirritun samningsins. Frá vinstri: Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa, Sigurjón Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri Norðanfisks og Jón Þórir Franzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.
Pure North Recycling er sprotafyrirtæki með verksmiðju í Hveragerði. Fyrirtækið endurvinnur plast með umhverfisvænum orkugjöfum og gegnir jarðvarmi þar aðalhlutverki. Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Í endurvinnslunni er plastúrgangi breytt í nýtt hráefni sem síðan er selt til framleiðslu á nýjum plastvörum hér á landi og erlendis.
Brim hóf á árinu að senda plast, sem áður fór til urðunar, s.s. einnota svuntur og hanska úr vinnslunni, í endurvinnslu hjá Pure North Recycling.
Á árinu féllu til um 43 tonn af plasti hjá Brim og dótturfélögum þess. Um 24 tonn af plastinu fóru til endurvinnslu en 19 tonn í urðun þar sem ekki fannst neinn endurvinnslufarvegur fyrir þann hluta. Með samstarfinu við Pure North sér Brim fram á miklar umbætur í þessum málum. Stefna Brims er að senda allt plast, sem fellur til í starfsemi félagsins, í endurvinnslu.
Á myndinni sést hvernig plastúrgangurinn er flokkaður í fjóra flokka; einnota hanska, einnota svuntur, pappír og annan úrgang sem fer í urðun.
Unnið hefur verið markvisst að því að ná utan um kolefnisfótspor félagsins undanfarin ár. Í þessari skýrslu bætast tveir nýir liðir við í umhverfisupppgjörið; annars vegar flutningur botnfiskafurða á erlenda markaði; hins vegar ferðir starfsmanna til og frá vinnu í starfsstöð félagsins í Reykjavík.
Með því er búið að ná utan um stærstan hluta af kolefnisfótspori félagsins. Næstu skref felast í því að greina þessa þætti enn frekar og bæta við fótspori vegna flutnings á uppsjávarafurðum á erlenda markaði og ferða starfsmanna til og frá öllum starfsstöðvum félagsins, ásamt fótspori vegna þjónustu ytri aðila við rekstur félagsins.
Árið 2020 er stefnt að því að ná utan um koltvísýringsígildi fyrir hvert kíló botnfisksafurðar frá vinnslu til flutnings. Nýr vinnslubúnaður og upplýsingakerfi í fiskvinnslu félagsins í Norðurgarði gerir það mögulegt.
Markaðslega er mikilvægt að geta sýnt fram á hvert kolefnisfótspor í villtum fiski er í samanburði við aðra matvöru, svo sem frá kjötafurðum. Auk þess má reikna með að á næstu árum krefjist kaupendur þess í auknum mæli að fá áreiðanlegar upplýsingar um kolefnisfótspor afurða okkar .